13.3.2008 | 18:46
Orð dagsins - Þórbergur Þórðarson
Í gær voru 120 ár frá fæðingu meistara Þórbergs ( og á morgun á mágkona mín afmæli - þori ekki að segja hversu ung hún verður ). Lífsreglur Þórbergs eru frábærlega skemmtilegar og vel framsettur texti ( hvernig finnst ykkur númer 14 og 18? ), fyllilega þess verðar að vera - Orð dagsins!
QUOTE |
Með því að nú færist óðum nær skólavist minni og eg hefi náð fullum líkamlegum styrkleik aftur, sem eigi er vert að spilla, áset ég mér að lifa hér eftir samkvæmt því er hér greinir: 1.gr. Hugsa alla hluti sem eg tek til meðferðar á annað borð svo grandgæfilega og samviskusamlega og frumlega, sem mér frekast er auðið. Kosta ávalt kapps um að leita sannleikans í hverju sem er. Hafa ávalt eitthvert viðfangsefni til íhugunar. Varast að festa hugann við draumórakendar ímyndanir um mig. 2. Temja mér sterkan og óbilandi viljakraft. Gefast aldrei upp þótt erfiðleikar verði á vegi mínum. Herðast við hverja raun. Varast að skjóta fyrirætlunum mínum á frest. 3. Temja mér að muna. 4. Temja mér skarpa og næma athygli og nákvæma eftirtekt. Beina huganum óskiftum að hverju því er eg beini honum á annað borð að. 5. Tala ávalt hreina og ómengaða íslensku, þegar eg á að tala hana. Varast erlendar málslettur. Tala mjög skýrt með skaftfelskum framburði og hafa mentamannabrag á máli mínu. 6. Temja mér mentamannasnið, fallegar hreyfingar og einbeittar. 7. Vera ávalt blátt áfram, einurðargóður og ófeiminn við hvern sem er. 8. Vera iðjusamur. Vinna aldrei skemur en 10 klst. Á virkum dögum og 6 klst. Á helgum. Öll mín vinna á að hníga að því að afla mér mikillar þekkingar á íslenskri tungu, íslenskum bókmenntum og sögu Íslands, ásamt öðrum greinum, sem þar að lúta. Eg skal ávalt sækja allar þær kenslustundir, sem mér ber að rækja við háskólann og vera jafnan svo vel undir hverja þeirra búinn, sem mér er frekast auðið. 9. Fara aldrei síðar á fætur en kl. 10 f.h.; vera þá klæddur og ganga hratt undir beru lofti kl 10-10 ½ f.h. Ganga síðan ½ klst. eftir hvern miðdegisverð. Loks skal eg ganga hratt úti ½ klst. að kveldinu, annað hvort rétt fyrir eða eftir kvöldverð. Hlaupa skal eg 8-10 mín. Daglega, um eitthvert skeið dags. Þessu má þó sleppa er eg vinn erfiðisvinnu. 10. Iðka allar Mullersæfingar daglega ásamt baði í vatni, sjó eða snjó. Einnig skal eg hefja stundarþungan stein 25 sinnum á loft með hvorri hendi daglega. Boxæfingu 20 sinnum með báðum höndum daglega. Axlaræfingu (handleggjasveiflur) 25 sinnum með báðum höndum daglega. Æfingarnar skal eg gera kl. 10-11 f.h. 11. Ganga beinn og fallega. 12. Iðka öndunaræfingar eigi sjaldnar en 6 sinnum og í 6 lotum daglega. 13. Sofa ávalt fyrir opnum glugga. 14. Vera aldrei lengur en 14 daga í sömu nærfötunum. 15. Bursta tennur kvelds og morgna. 16. Sofa helst eigi skemur en 7 klst. á sólarhring. 17. Reykja eigi meira en 3 pípur daglega, hvort sem þær eru smáar eða stórar og hvernig sem tóbakið er. Í þeirra stað gilda 3 vindlar eða 4 sígarettur. 18. Fremja eigi oftar samræðisverknað en þrisvar í mánuði, 10., 20., og síðasta hvers mánaðar og aldrei meira en einu sinni í hvert sinn. 19. Reglur þessar ganga í gildi 1. september 1916, kl.6 f.h. og skuldbind eg mig til að framfylgja þeim þannig óbreyttum um þriggja ára skeið, eða til 1. sept. 1919, og er mér óleyfilegt að breyta þeim, hvort heldur er í smáu eða stóru. Heiti eg hér með að framfylgja þeim dyggilega frá þessari stundu, hvort sem móti mér blæs eða með. Skráðar að Núpi í Dýrafirði, 1. september, 1916 og lögleiddar á ferð um fjallveginn milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, 3. sept., kl.10 e.h. Þórbergur Þórðarson |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábært
Hólmdís Hjartardóttir, 13.3.2008 kl. 18:49
Hvað með nr. 14...
SigrúnSveitó, 13.3.2008 kl. 19:06
Já, hún er svipuð og hjá mér!
Eysteinn Þór Kristinsson, 13.3.2008 kl. 19:16
Var það ekki Þórbergur sem vildi sovét Ísland?
ÓBJ (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 21:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.